Lífið

Disney slítur samstarfi við PewDiePie

atli ísleifsson skrifar
Áætlað er að Svíinn Felix Kjellberg, eða PewDiePie, hafi þénað 15 milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári vegna YouTube-myndbanda sinna.
Áætlað er að Svíinn Felix Kjellberg, eða PewDiePie, hafi þénað 15 milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári vegna YouTube-myndbanda sinna. Vísir/AFP
Disney hefur ákveðið að slíta samstarfi sínu við sænsku YouTube-stjörnuna PewDiePie vegna ásakana um gyðingahatur.

PewDiePie, sem heitir réttu nafni Felix Kjellberg, hefur á síðustu mánuðum birt myndbönd sem eru sögð ýta undir gyðingahatur og innihalda vísanir í nasisma.

Í frétt BBC segir frá því að Kjellberg hafi sjálfur sagt myndefnið sem um ræðir vissulega vera móðgandi og særandi en leggi áherslu á að hann styðji ekki nokkur viðhorf haturs.

Áætlað er að PewDiePie hafi þénað um 15 milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári vegna YouTube-myndbanda sinna.

Hann hefur unnið með Disney í gegnum Maker Studios, fyrirtækis sem er með fjölda YouTube-stjarna á sínum snærum. Í yfirlýsingu frá Maker Studios segir að þó að Kjellberg hafi ávallt ögrað þá hafi hann nú gengið of langt.

Kjellberg á í einu myndbandanna að hafa í gegnum fjáröflunarsíðu greitt tveimur Indverjum fyrir að halda á skilti þar sem á stóð „Death to all Jews“, þar sem dauða allra gyðinga er óskað.

Í öðru myndbandi á hann að hafa heilsað að nasistasið, sýnt hakakrossa sem aðdáandi teiknaði og spilað nasistastef. Hann segir að um grín hafi verið að ræða.

Á síðasta ári var Twitter-reikningi PewDiePie tímabundið lokað eftir að hann grínaðist með hryðjuverkasamtökin ISIS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×