Myndin hlaut tilnefningar til Óskarsins fyrir bestu mynd, besta leik í aðalhlutverki – bæði Ryan Gosling og Emma Stone hlutu þá tilnefningu, bestu leikstjórn, besta handrit, kvikmyndatakan, klipping, búningar og þar fram eftir götunum. Myndin hefur sem sé hlotið tilnefningar fyrir nánast allt sem er hægt að fá tilnefningu fyrir.
Ef úr verður að La La Land fari heim með verðlaun sem besta myndin er það nú samt sem áður alls ekki í fyrsta sinn sem dans- og söngvamynd hlýtur þá eftirsóttu viðurkenningu. Síðast var það söngleikurinn Chicago sem hirti styttuna og var það árið 2002. Rob Marshall leikstýrði þessari endurgerð af Broadway-söngleik en hann tekur þarna á spillingu í réttarkerfinu með söng og gleði – sem er að minnsta kosti líflegasta leiðin til að takast á við slík vandamál.
Á undan Chicago var það hins vegar Oliver!, söngleikjaútgáfa af Oliver Twist, sem tröllreið kvikmyndahúsum árið 1968. Hérna væri hægt að draga þær ályktanir að annaðhvort séu söngleikir gamaldags og eigi ekkert erindi við áhorfendur lengur eða þá að söngleikir séu að koma með „kombakk“ og nú sé að fara í hönd gullöld söngva og dansa á hvíta tjaldinu.

Í dag heyrir maður gagnrýnendur söngleikja agnúast út í hversu fáránlegt uppbrot það sé að skyndilega bresti fólk í söng og dans í miðjum samtölum og er það bersýnilega vegna þeirra áhrifa sem uppeldi við realískan heim hins nýja Hollywood hefur haft. Hinir eru á hinn bóginn oftast heillaðir af ævintýralegu sjónarspili og þeirri fjölbreyttu upplifun sem dans- og söngvamyndum fylgir – oft nostalgíukennd margfasa upplifun þar sem tónlistin spilar nánast jafn stóra rullu og sjálfur söguþráður myndarinnar. Kannski verður La La Land einmitt völd að nýrri gullöld söngleikja í Hollywood, það verður spennandi að sjá. Jafnvel munu áhrifin breiða úr sér í heiminum utan kvikmyndahússins og fólk fer að bresta í söng og dans á kaffihúsum heimsins.