Bíó og sjónvarp

Blóðberg endurgerð í Bandaríkjunum

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Björn Hlynur Haraldsson, leikari og leikstjóri, skrifar handrit að endurgerð á kvikmyndinni Blóðbergi ásamt erlendum handritshöfundi.
Björn Hlynur Haraldsson, leikari og leikstjóri, skrifar handrit að endurgerð á kvikmyndinni Blóðbergi ásamt erlendum handritshöfundi. Vísir/Stefán
Björn Hlynur Haraldsson skrifar handrit sjónvarpsþátta sem byggðir eru á kvikmyndinni Blóðbergi, sem stefnt er á að sýnda á Showtime, einni stærstu sjónvarpsstöð í heimi. Tökur fara að öllum líkindum fram næsta sumar en margar stjörnur hafa nú þegar verið nefndar, í tengslum við ákveðin hlutverk í þáttunum.

„Þessa stundina er ég að skrifa handrit að endurgerð á kvikmyndinni minni Blóðberg ásamt erlendum handritshöfundi. Stefnt er að tíu þátta sjónvarpsseríu sem byggð er á sögunni. Við verðum með handrit tilbúið í janúar og stefnt er að því að skjóta fyrsta þáttinn næsta sumar í Los Angeles,“ segir Björn Hlynur Haraldsson, leikari spurður út í fyrirhugaða sjónvarpsseríu fyrir Showtime eina stærstu sjónvarpsstöð í heimi.

Meðal þátta sem Showtime hefur framleitt eru Dexter, Homeland og Californication, sem allir hafa heldur betur slegið í gegn. Sjálfur mun hann leikstýra tveimur af tíu þáttum í seríunni sem stefnt er að því að framleiða seinni hluta næsta árs og fram á árið 2018.



Björn Hlynur Haraldsson við tökur á kvikmyndinni Blóðbergi. Mynd/Bjarki.
„Þetta opnar einhverjar dyr inn á bandaríska markaðinn. Svo er það undir mér komið að nýta það. Sérstaklega þar sem ég mun koma að flestum hliðum framleiðslunnar,“ segir Björn Hlynur, en hann er bæði höfundur,leikstjóri og yfirframleiðandi þáttanna, ásamt tveimur framleiðendum frá framleiðslufyrirtækinu Thruline Enter­tainment í Los Angeles.

Sem stendur er undirbúningur í fullum gangi fyrir prufuþátt en í Bandaríkjunum tíðkast að gerðir séu prufuþættir áður en sjónvarpsseríur er framleiddar, ef sá þáttur gengur vel er ákveðið að fara í heila sjónvarpsseríu. En hverjir munu leika í þáttunum?

„Leikaraval er ekki ákveðið ennþá en margar bandarískar stjörnur hafa verið nefndar. Það verður ákveðið fljótlega á næsta ári,“ útskýrir hann.

Björn Hlynur hitti framleiðanda á kvikmyndahátíð í Chicago þar sem Blóðberg var sýnd, framleiðandinn hreifst af myndinni og fljótlega fór atburðarás af stað sem varð til þess að áhugi vaknaði hjá Showtime.

„Síðan þá hefur verkefnið verið á miklu flugi því mikill hugur er í forsvarsmönnum Showtime að koma þessu á koppinn. Samningagerð hefur samt sem áður tekið rúmt ár. En nú er þetta að verða að veruleika,“ segir hann spenntur fyrir framhaldinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.