Það er fátt hátíðlegra en ilmurinn úr eldhúsinu þegar verið að útbúa jólamatinn og villibráð er ómissandi á veisluborðið. Metsöluhöfundurinn, landsliðskokkurinn og veiðimaðurinn Úlfar Finnbjörnsson deilir hér uppskriftum að nokkrum skotheldum og gómsætum réttum sem hægt er að töfra fram úr ýmis konar villibráð. Allt hráefni fæst í Hagkaup.

"Eftir eitt gargandi gott lundahádegi sagði ég við Jóa: „Hey, ég held ég fari bara að læra þessa vitleysu!“ „Ha? Hvaða vitleysu?“ spurði hann. „Heyrðu ég ætla bara að fara að læra að elda lunda og verða sprenglærður kokkur.“ Eftir það varð ekki aftur snúið og ég hef ekki stoppað upp lunda síðan."
Í bók Úlfars, Stóru bókinni um villibráð, er reynt að stikla á öllu því helsta sem varðar það hvernig á að ganga frá bráðinni eftir að hún er felld, hvernig á að reita, svíða eða hamfletta fugla, hvernig á að úrbeina og helstu grunnaðferðir við soð-, sósu- og paté-gerð ásamt uppskriftum og fleiru. "Ég vona að sem flestir geti nýtt sér þessa bók, hvort sem það eru veiðimenn, fagmenn eða áhugamenn um villibráð. Ég hefði að minnsta kosti þegið svona bók þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í veiðum og matreiðslu á villibráð."

fyrir 4
4 x 200 g krónhjartarsteikur
salt og nýmalaður pipar
2 msk. olía
30 g þurrkaðir villisveppir, malaðir í kaffikvörn eða matvinnsluvél
1 dl portvín
1/2 dl brandí
2 1/2 dl rjómi
1/2 msk. nautakjötskraftur
sósujafnari
Kryddið hreindýrasteikur með salti og pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í 2 mínútur á hvorri hlið. Takið steikurnar af pönnunni og setjið í 180°C heitan ofn í 5-7 mínútur. Setjið sveppamulning á sömu pönnu ásamt portvíni og brandíi og sjóðið vínið niður um 3/4. Bætið rjóma og kjötkrafti í sósuna og þykkið til með sósujafnara. Smakkið til með salti og pipar.
Gljáður skalottlaukur
8-12 skalottlaukar
1/2 l vatn
2 msk. olía
4 msk. sykur
3 timjangreinar
2 lárviðarlauf
2 msk. balsamedik
1 dl rauðvín
salt og pipar
Setjið skalottlauk og vatn saman í pott, þannig að rétt fljóti yfir laukinn. Kveikið undir en takið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp. Skrælið þá laukinn og steikið í olíu á pönnu þar til hann er orðinn fallega brúnn. Bræðið sykur á pönnu og látið hann brúnast. Bætið timjangreinum, lárviðarlaufum, balsamediki, rauðvíni, salti og pipar á pönnuna og sjóðið vökvann niður um 3/4.
Kóngssveppir
4-6 kóngssveppir, skornir í báta
1-2 msk. smjör
salt og nýmalaður pipar
Steikið sveppi upp úr smjöri á vel heitri pönnu í 2-3 mínútur og kryddið með salti og pipar.
