Fótbolti

Forseti Barcelona líkir nýjum samningi Suarez við frábæra jólagjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Vísir/Getty
Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez mun halda áfram að skora mörkin fyrir Barcelona á næstu árum en forseti Barcelona sagði frá því að félagið og leikmaðurinn væru búin að ganga frá nýjum samningi fyrir utan nokkur smáatriði.

Barcelona keypti Luis Suarez frá Liverpool í júlí 2014 fyrir 75 milljónir punda og hann hefur staðið sig frábærlega með spænska liðinu, unnið tvo meistaratitla og Meistaradeildina síðan að hann kom.

Luis Suarez var ekki bara markakóngur í spænsku deildinni á síðasta tímabili því hann hlaut einnig gullskó Evrópu.

„Við erum búnir að ganga frá þessu. Það vantar bara nokkur smáatriði í viðbót og við munum opinbera nýjan samning á næstu dögum eða vikum,“ sagði Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, við BBC.

„Við viljum að Luis Suarez verði hjá okkur í mörg ár til viðbótar. Hann er mikilvægur karakter fyrir okkar lið,“ sagði Bartomeu um úrúgvæska landsliðsmanninn.

Luis Suarez hefur náð frábærlega saman við þá Lionel Messi og Neymar en saman skoruðu þeir 131 mark í öllum keppnum á síðustu leiktíð þar sem Barcelona varð bæði spænskur meistari og spænskur bikarmeistari.

„Þetta verður frábær jólagjöf, ekki endilega fyrir Luis sem vissi að hann yrði hér áfram, heldur fyrir alla fótboltaáhugamenn,“ sagði Bartomeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×