Fótbolti

Messi: „Við erum í skítamálum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi og félagar eru í veseni.
Lionel Messi og félagar eru í veseni. vísir/getty
Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins í fótbolta, kallar eftir því að Argentínumenn standi saman eftir 3-0 tapið gegn erkifjendunum í Brasilíu í undankeppni HM 2018 í nótt.

Hvorki gengur né rekur hjá Argentínu í undankeppninni en liðið er búið að tapa tveimur leikjum í röð og ekki vinna í síðustu fjórum. Það er í sjötta sæti Suður-Ameríkuriðilsins með 16 stig eftir ellefu leiki.

„Við bjuggumst ekki við þessum úrslitum. Fram að fyrsta markinu var þetta jafn leikur og við vorum að spila vel. Það er bara svo erfitt að lenda undir því þá verður allt erfiðara,“ sagði Messi við argentínska fjölmiðla eftir leik.

„Við erum í skítamálum en við treystum samt áfram á sjálfa okkur. Ef við vinnum Kólumbíu í næsta leik erum við komnir aftur í baráttuna. Við erum samt meðvitaðir um að við erum ekki að spila vel. Við þurfum að breyta miklu fyrir leikinn gegn Kólumbíu,“ sagði Lionel Messi.

Fjögur efstu liðin í Suður-Ameríkuriðlinum fara beint á HM og það fimmta í umspil. Ef undankeppnin yrði flautuð af í dag myndu leikmenn Argentínu horfa á HM 2018 í sjónvarpinu en enn þá eru sjö leikir eftir.

„Við þurfum að vera sterkir og koma okkur út úr þessari stöðu. Núna þurfum við að sameinast meira en nokkru sinni fyrr. Við erum öll á höttunum eftir því sama: Að komast á HM,“ sagði Lionel Messi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×