„Við erum búin að vera hérna í fjóra daga,“ segir John í samtali við Vísi. „Ég hef alltaf viljað koma til Íslands og heimsækja Reykjavík og sjá náttúruna á Íslandi. Svo spilar tónlistin mikið hlutverk, ég er mikill aðdáandi hljómsveita eins og Múm og Sigur Rós,“ segir hann aðspurður hvers vegna þau ákváðu að sækja Ísland heim.
„Við höfum vitað af hátíðinni í nokkur ár og höfum alltaf talað um að koma. Svo á brúðkaupsferð náttúrulega að vera einskonar draumaferð þannig að þetta lá beint við,“ segir Rachel.
Reykjavík minnir á Skotland
Þau segja að rokið hafi komið sér örlítið í opna skjöldu þegar þau kíktu í hvalaskoðunarferð. Annars finnst þeim umhverfið heimilislegt og segja að náttúran minni þau á skosku hálendin, þaðan sem Rachel er ættuð.
„Þetta er góð blanda því við komum frá London og erum vön stórri borg, Reykjavík er stór en samt er sama stemning og í Skotlandi.
Vonast eftir leynitónleikum
Aðspurð segjast þau hjónin hlakka mest til að sjá Múm, Kronos Quartet og Lake Stret Dive.
„Við fengum ekki miða á Björk en við erum að vona að hún spili á einhverjum leynitónleikum sem við römbum inn á. Það er okkar besta von,“ segir John kíminn.
„Við hlökkum líka mikið til að sjá Kate Tempest,“ segir Rachel, en þau ætla að dvelja aðeins lengur á landinu eftir að hátíðinni lýkur og njóta brúðkaupsferðarinnnar.