
Kvikmyndastjörnurnar Jason Momoa og William Dafoe eru komnar norður en ekki er vitað hvenær Ben Affleck, sem leikur Batman, kemur til landsins en hann tók þátt í að leiklesa handrit Good Will Hunting um helgina í New York.
Öryggisgæsla er töluverð á Djúpavík en þó fékk kvikmyndagerðarmaðurinn William Short, sem staddur er hér á landi til að gera litla heimildarmynd um lokabardaga Grettis Ásmundarsonar, að sitja í mat með þeim sem eru að taka upp myndina. Hann greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni en maturinn er eldaður af Múlakaffi.
Jason Momoa, sem leikur Aquaman, birti myndir á Instagram-reikningi sínum af Djúpuvík og dásamaði þar haustfegurðina. Momoa er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Baywatch og Game of Thrones þar sem hann lék Khal Drogo. William Dafoe var gómaður í miðbæ Reykjavíkur fyrir utan Kalda bar en Dafoe leikur vin Aquaman, sem kallaður er Nuidis Vulko. Dafoe er gamalreyndur leikari og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Platoon árið 1986. Stefnt er að því að Justice League verði jólamyndin árið 2017, leikstjóri er Zack Snyder.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.