Enski boltinn

Henderson tekur við fyrirliðabandinu: „Rooney er leiðtoginn okkar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney byrjar á bekknum.
Wayne Rooney byrjar á bekknum. vísir/getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins í fótbolta, segir leikmenn enska liðsins áfram líta upp til Wayne Rooney, fyrirliða Englands, og að hann sé leiðtoginn í liðinu.

Gareth Southgate, þjálfari Englands, tók stóra ákvörðun í gær þegar hann ákvað að setja fyrirliðann á bekkinn en Rooney er aðeins búinn að skora eitt mark í tólf leikjum fyrir Manchester United og England á leiktíðinni. England mætir Slóveníu í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Baulað var á Rooney eftir 2-0 sigurinn á Möltu en þessi markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins á erfitt uppdráttar á sínum ferli þessa mánuðina.

Eric Dier kemur inn í liðið fyrir Rooney og Jordan Henderson tekur við fyrirliðabandinu. Liverpool-leikmaðurinn segir Rooney áfram hrikalega mikilvægan liðinu þó hann leiði það ekki út á völlinn í kvöld.

„Wayne er mjög reyndur og hefur að mínu mati verið einn besti leikmaður heims í mörg ár. Hann hefur sett fordæmi fyrir alla hina jafnt innan sem utan vallar,“ sagði Henderson á blaðamannafundi í gær.

„Hann er maður sem við horfum allir upp til sem fyrirliði. Hann er leiðtogi í þessu liði vegna reynslu sinnar og vegna þess hvernig maður hann er. Rooney er hrikalega mikilvægur liðinu og það breytist ekkert þó hann spili ekki leikinn,“ segir Jordan Henderson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×