Fótbolti

Suárez jafnaði met en Agüero lét verja frá sér vítaspyrnu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez er á leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu undankeppni HM í Suður-Ameríku.
Luis Suárez er á leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu undankeppni HM í Suður-Ameríku. vísir/getty
Kólumbía og Úrúgvæ skildu jöfn, 2-2, í stórleik í undankeppni Suður-Ameríku fyrir HM 2018 í gærkvöldi en Yerry Mina bjargaði stigi fyrir heimamenn sex mínútum fyrir leikslok.

Abel Aguilar kom Kólumbíu yfir á 15. mínútu en Cristian Rodríguez jafnaði metin tólf mínútum síðar og á 73. mínútu kom Luis Suárez gestunum frá Úrúgvæ yfir.

Þetta var sögulegt mark hjá Suárez því hann jafnaði met Hernán Crespo, fyrrverandi landsliðsframherja Argentínu, yfir flest mörk í sögu undankeppni HM í Suður-Ameríku. Suárez er nú búinn að skora 19 mörk líkt og Argentínumaðurinn.

Crespo skoraði mörkin sín 19 í 33 leikjum en Suárez tók sér 41 leik í að jafna metið. Það má þó nánast bóka það, að Suárez verði markahæstur í sögunni og rúmlega það en framherjinn á nóg eftir og skorar nánast þegar honum dettur það í hug.

Argentínumenn eru í smá basli í undankeppninni en þeir töpuðu á heimavelli gegn Paragvæ, 1-0, í nótt. Derlis Gonzalez skoraði eina mark gestanna en Sergio Agüero, framherji Argentínu, lét verja frá sér vítaspyrnu.

Argentína er í fimmta sæti undankeppninnar með 16 stig en fjögur efstu liðin fara beint á HM í Rússlandi og liðið í fimmta sæti fer í umspil. Enn þá eru átta umferðir eftir og Argentína er aðeins stigi á eftir Kólumbíu og Ekvador.

Brasilíumenn tróna á toppi riðilsins með 21 stig og Úrúgvæ er í öðru sæti með 20 stig eftir jafnteflið gegn Kólumbíu. Síle vann mikilvægan 2-1 sigur á Perú í nótt og lagaði aðeins stöðu sína en liðið er í 7. sæti með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×