Fótbolti

Wales var heppið á EM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Coleman á æfingu með velska liðinu.
Coleman á æfingu með velska liðinu. vísir/getty
Chris Coleman, landsliðsþjálfari Wales, er allt annað en sáttur við kollega sinn hjá Austurríki, Marcel Koller.

Koller sagði að heppni hefði komið Wales í undanúrslit á EM síðasta sumar og þau ummæli féllu ekki í kramið hjá Coleman.

„Mörg lið á EM höndluðu ekki pressuna en við gerðum það. Ég myndi ekki segja að heppni hefði komið okkur í undanúrslit. Við fengum okkar skerf af heppni og óheppni eins og gengur. Ástæðan fyrir árangri okkar er að við erum með gott lið,“ sagði Coleman pirraður en Wales spilar við Austurríki í undankeppni HM í Vín í kvöld.

Austurríki stóð engan veginn undir væntingum á EM. Var í riðli Íslands og fór heim eftir undankeppnina. Þess vegna er frekar skrítið að Koller sé að rífa kjaft.

„Stundum þarf heppni til að ná árangri og Wales var oft mjög heppið. Það hjálpaði liðinu að fá sjálfstraust. Það átti enginn von á því að Wales færi í undanúrslit,“ sagði Koller.

Það er búið að hella olíu á eldinn fyrir leik þessara liða og verður áhugavert að fylgjast með leik liðanna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×