Fótbolti

Var markið raunverulegt hneyksli?

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Hans Backe þjálfari finnska landsliðsins í fótbolta segir sigurmark Íslands í landsleik þjóðanna á fimmtudaginn hafa verið hneyksli.

Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður hjá 365 fór yfir það í íþróttafréttum Stöðvar 2 í gærkvöld og komst ekki að sömu niðurstöðu og Backe.

Hinn sænski þjálfari Finna sagði dómarann og aðstoðarmenn hans hafa átt að dæma rangstöðu og hendi áður en Lukas Hradecky markvörður varði frá Ragnar Sigurðssyni.

Eins og myndirnar sýna þá var Ragnar hvorki rangstæður né notaði hann höndina. Spurningin er aftur hvort dæma hefði átt víti á Kari Arkivuo sem handlék knöttin þegar boltinn fór af Ragnari í átt að marki?

Boltinn virðist ekki hafa farið yfir línuna eftir skot Ragnars en markið er skráð á hann og Hradecky virðist hafa verið með vald á boltanum þegar Alfreð Finnbogason kom boltanum að lokum yfir línuna.

Er þetta hneyksli líkt og Backe segir? Heimir Hallgrímsson missir að minnsta kosti ekki svefn yfir þessu þegar hann undirbýr Ísland undir leikinn gegn Tyrklandi annað kvöld; „mér er svo slétt sama,“ sagði íslenski landsliðsþjálfarinn um atvikin sem Backe kallar hneyksli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×