Fótbolti

Heimir: Hannes er klár

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson vísir/ernir
Heimir Hallgrímsson þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins staðfesti á blaðamannafundi í morgun að Hannes Þór Halldórsson er klár í slaginn gegn Tyrkjum eftir meiðsli.

Hannes missti af 3-2 sigrinum gegn Finnlandi vegna meiðsla líkt og Jón Daði Böðvarsson og Emil Hallfreðsson. Meiri líkur eru á að Jón Daði verði með gegn Tyrkjum en Emil.

„Hannes er 100% klár, Jón Daði er mjög líklegur og það er ólíklegast með Emil, við munum skoða hann í síðasta skiptið hér á eftir. Kannski á morgun,“ sagði Heimir.

„Við vissum það fyrir þessa tvo leiki að Emil yrði tæpastur af þessum öllum þannig að það kemur okkur ekkert á óvart.“

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands er í leikbanni gegn Tyrkjum en Emil hefur verið einn þeirra sem leikið hafa í stöðu landsliðsfyrirliðans í þau fáu skipti sem hann hefur misst af leikjum.

Heimir vildi að sjálfsögðu ekkert gefa upp um hvernig hann mun stilla upp í fjarveru Arons en Ólafur Ingi Skúlason og Birkir Bjarnason gætu tekið stöðu hans. Verði það Birkir mun að öllum líkindum annað hvort Theódór Elmar Bjarnason eða Arnór Yngvi Traustason taka stöðu hans á kantinum.

„Við erum að hugsa ansi margt. Auðvitað gefum við það ekki upp hér hvað við ætlum að gera. Við erum í okkar huga búnir að ákveða hvað við ætlum að gera,“ sagði Heimir varðandi liðsvalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×