Fótbolti

Þreytti frumraun sína gegn Íslandi og er nú sagður hinn "Svarti Beckenbauer“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Samuel Umtiti er mjög efnilegur leikmaður.
Samuel Umtiti er mjög efnilegur leikmaður. vísir/getty
Samuel Umtiti, miðvörður Barcelona og franska landsliðsins, getur orðið Franz Beckenbauer þeirra Börsunga að mati Eric Abidal, fyrrverandi leikmanns Barcelona og franska landsliðsins.

Umtiti var keyptur fyrir 30 milljónir evra frá Lyon til Barcelona í sumar en hann þreytti frumraun sína með franska landsliðinu í átta liða úrslitum Evrópumótsins í sumar gegn Íslandi.

Þessi 22 ára gamli miðvörður, sem verður reyndar ekki með Barcelona gegn Atlético Madrid í spænsku 1. deildinni í kvöld vegna meiðsla, kom inn í franska liðið fyrir Adil Rami gegn Íslandi og stóð sig frábærlega.

Hann var fyrsti leikmaðurinn sem spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Frakkland á stórmóti í 50 ár en Umtiti kláraði allar 77 sendingar sínar í 5-2 sigri Frakka gegn strákunum okkar.

Eric Abidal, samlandi Umtiti, spilaði áður með Barcelona og franska landsliðinu en hann hefur miklar mætur á miðverðinum unga.

„Umtiti er miklu betri en Abidal,“ sagði hann í viðtali við RAC1 beðinn um að bera Umtiti saman við sjálfan sig. „Hann verður hinn svarti Beckenbauer fyrir Barcelona,“ sagði Eric Abidal.

Leikur Barcelona og Atlético Madríd verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 HD klukkan 20.00 í kvöld




Fleiri fréttir

Sjá meira


×