Meðlimir Kroniku koma úr öllum áttum og árekstur þeirra skapaði bræðing sem erfitt er að skilgreina.
Fremst í flokki fer Tinna Sverrisdóttir sem áður hafði breytt íslensku rappsenunni með Reykjavíkurdætrum.
Í sveitinni fær hún að njóta sín til fullnustu við rapp, söng, textagerð og öfgafulla tjáningu sem tælir alla með í dans og dulúð. Fyrir aftan hana standa þrír fullvaxta karlmenn, Guðmundur Stefán Þorvaldsson sem slær gítar og er sjálfsagt þekktastur fyrir að hafa gert slíkt áður, en þá kannski lausar, með krúttsprengjunum í Sunnyside Road.
Um dekkri hliðina sjá Snæbjörn Ragnarsson bassaleikari Skálmaldar og Birgir Jónsson trommuleikari Dimmu. Þau fjögur eru Kronika. Hér að neðan má sjá þetta nýja myndband.