Körfubolti

Allir fengu „Gangi þér vel“ frá Guðna forseta nema Kristófer Acox sem fékk „Good luck“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristófer Acox er sonur Terry Acox sem spilaði hér á landi á síðustu öld.
Kristófer Acox er sonur Terry Acox sem spilaði hér á landi á síðustu öld. vísir/stefán
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, greindi frá skondnu atviki sem kom upp fyrir leik Íslands og Sviss í gær á Twitter-síðu sinni eftir glæsilegan 16 stiga sigur strákanna, 88-72. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heilsaði honum á ensku fyrir leikinn en öllum öðrum leikmönnum liðsins á íslensku.

Guðni Th. var heiðursgestur á leiknum en faðir hans, Jóhannes Sæmundsson, var aðstoðarþjálfari Einars Bollasonar þegar Ísland vann Sviss í fyrsta og eina skiptið í landsleik árið 1981. Annar sigurinn datt svo inn í gær.

Guðni heilsaði fyrst leikmönnum Sviss ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, og gekk svo á íslensku línuna þar sem hann óskaði öllum strákunum okkar velfarnaðar í leiknum.

Kristófer Acox skorar tvö stig á móti Sviss í gærkvöldi.vísir/ernir
„Thanks bruh“

Ellefu af tólf leikmönnum liðsins fengu kveðju frá forsetanum á íslensku en Kristófer, sem á íslenska móður en amerískan föður sem spilaði körfubolta hér á landi á síðustu öld, fékk kveðju á ensku.

„Allir í liðinu fengu „gangi ykkur vel“ frá Guðna forseta nema kallinn. Ég fékk „good luck.“ Annars geðveikur stuðningur í kvöld. Áfram Ísland,“ skrifaði Kristófer á Twitter-síðu sína.

Þessi öflugi kraftframherji sem spilar með Furman-háskólanum í efstu deild háskólaboltans í Bandaríkjunum átti góðan leik og skoraði sjö stig og tók sjö fráköst á þeim 16 mínútum sem hann spilaði í sigrinum í gærkvöldi.

Hann hafði húmor fyrir þessum ruglingi forsetans en aðspurður eftir Twitter-færsluna hvernig hann svaraði Guðna Th. sagði Kristófer: „Thanks bruh.“


Tengdar fréttir

Hlynur til Stjörnunnar

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, mun leika með Stjörnunni í Domino's deild karla á komandi tímabili.

Nærri því fullkomin byrjun

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta byrjaði undankeppni EM 2017 með stæl í Laugardalshöllinni í gærkvöldi þegar það lagði Sviss með 16 stiga mun, 88-72. Þjálfarinn Craig Pedersen var ánægður með sigurinn en vill að liðið bæti sig fyrir næsta leik. Leiðin á EM byrjar vel en næsti leikur er á Kýpur.

Hlynur: Skrítin tímasetning á þessu hjá mér

"Það er mjög góð tilfinning að byrja svona undankeppni vel og þetta var bara mjög góður leikur hjá okkur að mestu leyti,“ segir Hlynur Bæringsson eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×