Fótbolti

Heimir: Var ekki búinn að ákveða hvort að Ari færi af velli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/EPA
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að liðið hafi átt betri leiki en í Úkraínu í kvöld en þar skildu liðin jöfn, 1-1.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í undankeppni HM 2018 og sá fyrsti með Heimi einan sem landsliðsþjálfara.

„Þetta var ekki einn af okkar bestu leikjum. Vinnusemin var fín og varnarskipulagið ágætt. Þeir fengu ekki mörg færi,“ sagði Heimir í samtali við Rúv eftir leikinn í kvöld.

„Við töpuðum boltanum hins vegar of fljótt eftir að hafa verið í sókn en fengum þó fín færi í fyrri hálfleik til að gera út um leikinn. Það kom svo mark í lok fyrri hálfleik sem sló okkur út af laginu og við náðum ekki sama dampi í seinni hálfleik.“

Heimir segir að Úkraína sé með sterkt lið. „Það eru ekki mörg lið sem koma hingað og vinna þá. Við getum því verið ánægðir með stigið, sérstaklega þar sem þeir fengu vítaspyrnu sem þeir nýttu ekki.“

Ari Freyr Skúlason þurfti að fara af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleik. Hann var borinn af velli en á meðan að Hörður Björgvin Magnússon var að gera sig tilbúinn að koma inn á skoraði Úkraína mark sitt í leiknum.

„Þegar það átti að tilkynna skiptinguna var ekki ákveðið hvort að Ari færi af velli. Það var þjálfarans að ákveða af eða á,“ sagði Heimir.

„Við höfum áður spilað tíu gegn ellefu og haldið því út. En þetta fór svona núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×