Fótbolti

Strákarnir falla um fjögur sæti en eru áfram konungar norðursins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir eru áfram bestir á Norðurlöndum.
Strákarnir eru áfram bestir á Norðurlöndum. vísir/epa
Spænski tölfræðisnillingurinn Alexis Martín sem gengur undir nafinu Mr. Chip á Twitter er búinn að reikna út efstu 60 sætin á heimslista FIFA sem birtur verður næst 15. september.

Þetta gerir Martín eftir hverja landsleikjaviku og honum skeikar vanalega aldrei um eitt einasta stig.

Strákarnir okkar, sem féllu um eitt sæti á síðasta lista, falla nú um fjögur sæti niður í 27. sæti heimslistans eftir jafnteflið gegn Úkraínu í Kænugarði á mánudagskvöldið.

Íslenska liðið var í 22. sæti á listanum sem var birtur skömmu eftir að Evrópumótinu í Frakklandi lauk en féll um eitt sæti niður í það 23. á listanum í ágúst þrátt fyrir að spila ekki leik.

Alfreð Finnbogason skoraði markið gegn Úkraínu.vísir/epa
Norðmenn út af topp 60

Nú fara strákarnir niður í 27. sæti en verða tveimur sætum fyrir ofan Úkraínu sem það gerði jafntefli við á mánudagskvöldið. Króatar eru efstir af liðunum í riðli Íslands í undankeppni HM en þeir eru í 15. sæti og Tyrkir eru í 21. sæti.

Strákarnir okkar eru sem fyrr langbesta lið Norðurlanda samkvæmt heimslistanum og halda sæmdarheitinu konungar norðursins. Svíar verða næstir okkur Íslendingum á nýjum heimslista í 41. sæti og Danir verða í þriðja sæti af Norðurlandaþjóðunum í 46. sæti listans.

Alexis reiknar bara út 60 efstu sætin en Norðmenn virðast hríðfalla á næsta lista því þeir voru í 50. sæti en eru ekki á topp 60 að þessu sinni. Noregur tapaði vináttuleik gegn Hvíta-Rússlandi í síðustu viku og lét Þýskaland svo pakka sér saman í undankeppni HM á sunnudaginn.

Finnar, sem eru með Íslendingum í riðli, voru í 61. sæti á síðasta lista og virðast ekki skríða inn á topp 60 og þar eru Færeyingar ekki heldur.

Argentína mun halda efsta sætinu á listanum og Belgar verða áfram í öðru sæti en Kólumbíumenn og Þjóðverjar deila 3.-4. sætinu. Efstu 60 sætin á næsta heimslista má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Ásættanleg byrjun í Úkraínu

Ísland hóf vegferð sína að sæti í úrslitakeppni HM 2018 í Rússlandi með því að gera jafntefli við sterkt lið Úkraínu ytra í gær, 1-1. Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti en gátu að lokum prísað sig sæla að ná stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×