Aude Busson sér um skipulagningu viðburðarins en hann verður með öðru sniði en síðustu ár. „Núna verðum við með allt í Sundhöllinni og einnig með fjórar sýningar fyrir börn og fjölskyldur. Í ár ætlum við að sýna teiknimyndina Greppibarnið. Þá mun barnalaugin breytast í snjóþungan skóg í nokkrar klukkustundir á meðan fylgst er með ævintýrum greppibarnsins sem stelst út í stóra dimma skóginn. Svo munu óma skógarhljóð um Sundhöllina og hver veit nema stóra vonda músin gæti birst á veggjunum. Þetta er falleg saga um hugrekki og það er gaman að búa til þetta andrúmsloft til þess að örva ímyndunarafl barnanna.“
Tvær sýningar verða fyrir fullorðna en þá verður Frankenstein sýnd. „Við reynum alltaf að hafa klassískar myndir í sundbíóinu. Í ár leituðum við í aðeins eldri mynd, en Frankenstein er frá árinu 1931. Hún er í svarthvítu en er samt með tali. Það má segja að sú mynd hafi verið upphafið að hryllingsmyndum og okkur langaði að sýna það. Það verða leikarar og alls konar leikmunir á bakkanum til þess að koma gestum inn í andrúmsloft myndarinnar.“
Miðasala hefst í dag á riff.is en miðarnir á Frankenstein kosta 2.000 krónur. Á barnasýninguna kostar 1.000 krónur fyrir fullorðna, 500 krónur fyrir börn og það er frítt inn fyrir tveggja ára og yngri. Sýningartímar á Greppibarninu eru klukkan 13.00, 14.00, 15.00 og 16.00. Frankenstein verður sýnd klukkan 20.00 og 22.00.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. ágúst.