Vic Mensa er einn af nokkrum ungum röppurum sem hafa klifrað ansi hátt á skömmum tíma vestanhafs án þess að hafa gefið mikið af efni út, en hans fyrsta plata á enn eftir að líta dagsins ljós. Hann hefur starfað töluvert með Chance the Rapper sem hefur átt svipaðri velgengni að fagna og komist á stjörnuhimininn vestra, en þeir eru báðir frá Chicago og hefur hvorugur gefið út plötu. Einnig hafa þeir báðir fengið blessun Kanye West, sem vill oft gera ungum listamönnum greiða.
Vic Mensa var til dæmis með í Kanye-laginu Wolves og þeir tóku það saman ásamt söngkonunni Sia í þættinum Saturday Night Live – en síðan, þegar Life of Pablo platan hans Kanye West kom út, var Vic skyndilega horfinn úr laginu. Saman gerðu þeir þó lagið U Mad sem kom fyrst út á Soundcloud-síðu Vic Mensa og varð það ágætlega vinsælt og er sagt vera hans önnur smáskífa af væntanlegri plötu – einnig var Vic skráður sem meðhöfundur að lagi Kayne West All Day og var fyrir það tilnefndur til Grammy-verðlauna árið 2015.

Justin Bieber mætir í Kórinn ásamt Vic Mensa og Sturla Atlas þann 8. og 9. september og mun þetta vera stærsti tónlistarviðburður í Íslandssögunni en samtals eru 19.000 miðar í boði. Enn er hægt að kaupa miða á seinni tónleikana á tix.is en það seldist upp á örskotsstundu á þá fyrri.