Mikel John Obi fór fyrir liði Nígeríu í 2-0 sigri á Danmörku í 8-liða úrslitum á Ólympíuleikunum í knattspyrnu í karlaflokki en Mikel skoraði annað og lagði upp hitt mark Nígeríu í leiknum.
Mikel sem ber fyrirliðabandið á mótinu kom Nígeríumönnum yfir snemma leiks þegar hann renndi boltanum í netið af stuttu færi.
Sjaldséð mark hjá Mikel sem hefur aðeins skorað eitt mark í 247 leikjum með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en þetta var fimmta mark hans með nígerska landsliðinu.
Hann lagði upp annað mark Nígeríu á 59. mínútu þegar Aminu Umar skallaði hornspyrnu hans í netið.
Lauk leiknum með 2-0 sigri Nígeríu en með sigrinum er liðið komið í undanúrslit Ólympíuleikanna þar sem Nígería mætir Þjóðverjum en Danir eru á leiðinni heim.
