Körfubolti

Jakob Örn hættur með landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob Örn í leik með íslenska landsliðinu. Hann á að baki fimmtán ára feril með því og lék á þeim árum 85 landsleiki.
Jakob Örn í leik með íslenska landsliðinu. Hann á að baki fimmtán ára feril með því og lék á þeim árum 85 landsleiki. Vísir/Valli
Jakob Örn Sigurðarson hefur ákveðið að hætta að spila með íslenska landsliðinu í körfubolta en þetta staðfesti hann í samtali við Vísi í dag.

„Ég hef ákveðið að segja það gott með landsliðinu. Þetta er því meira en það að ég gefi ekki bara kost á mér í þetta verkefni,“ sagði Jakob Örn en í tilkynningu KKÍ í dag var sagt að hann gæfi ekki kost á sér í landsliðið fyrir undankeppni EM 2017 í haust.

Jakob hefur ekkert æft með landsliðinu í sumar og gaf sér góðan tíma í að taka ákvörðun sína.

„Ég tók mér veturinn og sumarið í að hugsa þetta almennilega í gegn. Einhvern tímann verður þetta að taka enda og ég ákvað að núna væri sá tími kominn,“ segir Jakob.

„Mér fannst það í fyrstu skrítin tilhugsun að ég myndi ekki spila meira með landsliðinu. Sérstaklega þegar strákarnir byrjuðu að æfa og maður sá myndir af þeim á æfingum. Ég saknaði þess að vera með þeim og geri enn.“

„En mér líður vel með mína ákvörðun og finnst hún rétt. Ég er mjög sáttur með minn feril og ánægður með hvernig hann hefur verið. Ég geng sáttur frá landsliðsferlinum.“

Hann segir að aðalástæðan fyrir því að hann vilji hætta nú er að gefa fjölskyldu sinni meiri tíma.

„Strákarnir mínir eru á þeim aldri að þeir þurfa mikinn tíma og mér finnst mikilvægt að ég get gefið mig að fjölskyldunni eins mikið og hægt er. Þetta er tími sem ég vil ekki missa af. Þó svo að tíminn með landsliðinu sé í sjálfu sér stuttur þá fer öll einbeitingin yfir allt sumarið í landsliðið en ég vil einbeita mér að fjölskyldunni eins mikið og ég get.“

Jakob Örn er á mála hjá Borås í sænsku úrvalsdeildinni og á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann lék sinn síðasta landsleik árið 2015 en á fimmtán árum lék hann alls 85 landsleiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×