Kjartan Henry Finnbogason skoraði sitt fyrsta mark í dönsku úrvalsdeildinni þegar Horsens gerði 2-2 jafntefli við Bröndby í dag.
Kjartan fékk tækifæri í byrjunarliði Horsens í dag og þakkaði traustið með marki á 58. mínútu. Hann varð þar með fyrstur til að skora hjá Bröndby í dönsku deildinni á tímabilinu. Kjartani var skipt út af níu mínútum eftir að hann skoraði.
Hjörtur Hermannsson lék sinn fyrsta leik fyrir Bröndby í dag en hann stóð vaktina í hjarta varnarinnar.
Bröndby komst í 2-0 snemma í seinni hálfleik en mark Kjartans kom Horsens inn í leikinn. Kim Aabech jafnaði svo metin átta mínútum fyrir leikslok og tryggði nýliðunum stig.
Horsens hefur því gert jafntefli í fyrstu þremur leikjum sínum í dönsku deildinni. Bröndby er aftur á móti með sjö stig í 3. sæti deildarinnar.
Kjartan Henry fyrstur til að skora hjá Bröndby
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
