Aðhald að utan Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 23. júlí 2016 12:30 Stundum heyrist að enginn munur sé á Íslandi og gerspilltum ríkjum í þriðja heiminum. Hér sé, líkt og þar, landlæg frændhygli og misbeiting opinbers valds. Þetta er rétt svo langt sem það nær. Benda má á mýmörg dæmi um klíkuskap og stórkarlalega misneytingu opinbers valds á Íslandi. Flestir hafa á tilfinningunni að íslensku dómsvaldi hafi stundum orðið illa á í messunni. Æ oftar birtast efasemdir um að dæmt sé eftir lögunum. En þótt framkvæmdarvald og dómstólar hér eigi misjafna daga verður að gæta sannmælis í samanburðinum. Fólk sem þekkir harðstjórn í fátækum löndum veit að það er eðlismunur á spillingunni hér og þeim hörmungum sem viðgangast í skjóli siðlausra einræðisstjórna. Harðstjórar láta njósna um þegna sína, jafnvel inni á þeirra eigin heimilum, mútuþægni er landlæg, þeir siga lögreglu á stjórnarandstæðinga, hernum á almenning og beita dómsvaldi til að losa sig við þá sem sýna óæskilega hegðun. Þeir drepa fólk. Himinn og haf er milli stjórnarfars hér og ógnarstjórna í fjölda misspilltra landa nær og fjær. Tyrkland er ekki þriðja heims ríki. Það á aðild að mörgum burðugustu lýðræðisstofnunum heims og skuldbindur sig samkvæmt því. Samt berast ömurlegar fréttir af viðbrögðum stjórnvalda við meintri valdaránstilraun hersins, sem forsetinn segir hróðugur að tekist hafi að brjóta á bak aftur – hvað sem er satt og hvað logið í þeim efnum. Viðbrögð Erdogans forseta og æðstu stjórnvalda eru ofsafengin. Boðuð er lögleiðing dauðarefsingar með afturvirkum lagabálki til að ná fram réttlæti gagnvart þeim sem eru á lista yfir meint landráðafólk. Þúsundir og aftur þúsundir hafa verið reknar úr starfi fyrir skoðanir sínar. Nægilegt er að vera grunaður um stuðning við valdaránsmenn. Ofstopinn í Tyrklandi er okkur sem betur fer framandi. Þó er hann þörf áminning um að mikið reynir á yfirvöld að halda stillingu á erfiðum tímum. Í skugga einhvers konar ringulreiðar má ekki dæma eftir annars konar reglum en giltu þegar atvikin áttu sér stað. Ákæruvaldi á ekki að beita til að slá á reiði fólks. Ekki má í skugga ástands, sem skapast vegna áfalla, fara á svig við mannréttindareglur. Þær eiga að gilda jafnt fyrir alla, hvað sem líður andúð og stílfimi háværra álitsgjafa, skoðunum mælskra ráðherra og óvinsældum sakborninga. Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassburg er með til athugunar nokkur kærumál gegn íslenska ríkinu. Við erum skuldbundin til að lúta reglum dómstólsins. Hann hefur sent innanríkisráðuneytinu áleitnar spurningar sem varða grundvallarmannréttindi sakborninga í hrunmálum. Það er hollt aðhald. Sennilega hefði stærstu afglöpum íslenska refsikerfisins á seinni hluta síðustu aldar verið afstýrt ef dómstóllinn í Strassburg hefði verið kominn til sögunnar fyrir 40 árum. Samfélagið væri örugglega betra ef við hefðum verið laus við þann draug og sársaukann sem hann olli. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun
Stundum heyrist að enginn munur sé á Íslandi og gerspilltum ríkjum í þriðja heiminum. Hér sé, líkt og þar, landlæg frændhygli og misbeiting opinbers valds. Þetta er rétt svo langt sem það nær. Benda má á mýmörg dæmi um klíkuskap og stórkarlalega misneytingu opinbers valds á Íslandi. Flestir hafa á tilfinningunni að íslensku dómsvaldi hafi stundum orðið illa á í messunni. Æ oftar birtast efasemdir um að dæmt sé eftir lögunum. En þótt framkvæmdarvald og dómstólar hér eigi misjafna daga verður að gæta sannmælis í samanburðinum. Fólk sem þekkir harðstjórn í fátækum löndum veit að það er eðlismunur á spillingunni hér og þeim hörmungum sem viðgangast í skjóli siðlausra einræðisstjórna. Harðstjórar láta njósna um þegna sína, jafnvel inni á þeirra eigin heimilum, mútuþægni er landlæg, þeir siga lögreglu á stjórnarandstæðinga, hernum á almenning og beita dómsvaldi til að losa sig við þá sem sýna óæskilega hegðun. Þeir drepa fólk. Himinn og haf er milli stjórnarfars hér og ógnarstjórna í fjölda misspilltra landa nær og fjær. Tyrkland er ekki þriðja heims ríki. Það á aðild að mörgum burðugustu lýðræðisstofnunum heims og skuldbindur sig samkvæmt því. Samt berast ömurlegar fréttir af viðbrögðum stjórnvalda við meintri valdaránstilraun hersins, sem forsetinn segir hróðugur að tekist hafi að brjóta á bak aftur – hvað sem er satt og hvað logið í þeim efnum. Viðbrögð Erdogans forseta og æðstu stjórnvalda eru ofsafengin. Boðuð er lögleiðing dauðarefsingar með afturvirkum lagabálki til að ná fram réttlæti gagnvart þeim sem eru á lista yfir meint landráðafólk. Þúsundir og aftur þúsundir hafa verið reknar úr starfi fyrir skoðanir sínar. Nægilegt er að vera grunaður um stuðning við valdaránsmenn. Ofstopinn í Tyrklandi er okkur sem betur fer framandi. Þó er hann þörf áminning um að mikið reynir á yfirvöld að halda stillingu á erfiðum tímum. Í skugga einhvers konar ringulreiðar má ekki dæma eftir annars konar reglum en giltu þegar atvikin áttu sér stað. Ákæruvaldi á ekki að beita til að slá á reiði fólks. Ekki má í skugga ástands, sem skapast vegna áfalla, fara á svig við mannréttindareglur. Þær eiga að gilda jafnt fyrir alla, hvað sem líður andúð og stílfimi háværra álitsgjafa, skoðunum mælskra ráðherra og óvinsældum sakborninga. Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassburg er með til athugunar nokkur kærumál gegn íslenska ríkinu. Við erum skuldbundin til að lúta reglum dómstólsins. Hann hefur sent innanríkisráðuneytinu áleitnar spurningar sem varða grundvallarmannréttindi sakborninga í hrunmálum. Það er hollt aðhald. Sennilega hefði stærstu afglöpum íslenska refsikerfisins á seinni hluta síðustu aldar verið afstýrt ef dómstóllinn í Strassburg hefði verið kominn til sögunnar fyrir 40 árum. Samfélagið væri örugglega betra ef við hefðum verið laus við þann draug og sársaukann sem hann olli.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun