Körfubolti

Stelpurnar byrja á tveimur sigrum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar byrja vel.
Stelpurnar byrja vel. mynd/kkí
Ungu körfuboltalandsliðið halda áfram að gera það gott en degi eftir frækið silfur U20 ára landsliðs karla unnu stelpurnar okkar í U18 ára liðinu sinn annan sigur í röð í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Bosníu og Hersegóvínu.

Stelpurnar lögðu Portúgal í fyrsta leik í gær, 61-52, og gerðu sér svo lítið fyrir og tóku Rúmena í öðrum leik riðilsins í dag með ellefu stiga mun, 62-51.

Stelpurnar tóku völdin strax í fyrsta leikhluta sem þær unnu, 19-11. Annar leikhluti fór alveg eins og var staðan því 38-22 fyrir Íslandi í hálfleik. Ísland steig aðeins af bremsunni í seinni hálfleik en vann þó þriðja leikhlutann með einu stigi áður en þær töpuðu þeim fjórða með sex stigum en sigurinn var aldrei í hættu.

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var stigahæst hjá íslenska liðinu í dag með fimmtán stig en við það bætti hún þrettán fráköstum og fjórum stoðsendingum. Frábær leikur hjá Blikanum.

Keflvíkingurinn Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði tólf stig og tók fjögur fráköst og liðsfélagi hennar Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði ellefu stig. Sylvía Rún Hálfdánardóttir úr Haukum bauð svo upp á tvennu með tíu stigum og tólf fráköstum. Sylvía Rún fór á kostum í gær þegar hún skoraði 21 stig og tók níu fráköst í sigrinum á Portúgal.

Ísland er með fjögur stig eftir sigrana tvo og á eftir leiki gegn Portúgal og heimastúlkum frá Bosníu og Hersegóvínu sem stelpurnar okkar mæta á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×