Körfubolti

Unnu Norðurlandameistarana og tryggðu sig inn í átta liða úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska 18 ára landsliðið.
Íslenska 18 ára landsliðið. Mynd/FIBAEurope
Stelpurnar í íslenska átján ára landsliðinu í körfubolta unnu átta stiga sigur á Finnum í B-deild Evrópukeppninnar í Bosníu í dag.

Finnarnir, sem eru nýkrýndir Norðurlandameistarar, sóttu að íslensku stelpunum undir lok leiks en okkar stelpur héldu út og fögnuðu mikilvægum sigri, 81-73. Stelpurnar trygðu sér þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar. 

Íslenska liðið lék mjög vel í fyrstu þremur leikhlutunum í leiknum. Liðið var sextán stigum yfir í hálfleik, 45-29 og var komið 22 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 66-44.

Finnarnir náðu að laga stöðuna í lokaleikhlutanum en þeir unnu hann 29-15 og komu muninum niður í átta stig.

Haukastúlkan Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti stórleik en hún var með tröllatvennu, 28 stig og 20 fráköst, auk þess að senda 5 stoðsendingar og stela 5 boltum.

Keflvíkingurinn Emelía Ósk Gunnarsdóttir var með 15 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar auk þess að spila frábæra vörn en íslenska liðið vann með 31 stigi þegar hún var inná vellinum. Íslenska liðið gaf talsvert eftir þegar hún fékk sina fimmtu villu.  

Blikinn og verðandi Valsarinn Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var síðan með 13 stig og 15 fráköst auk þess að stela 2 boltum.

Íslenska stelpurnar hefndu þar með fyrir sex stiga tap á Norðurlandamótinu í júní en Finnar urðu þar Norðurlandameistarar en íslenska liðið fékk þá brons.

Íslenska landsliðið hafa þar með unnið 3 af fyrstu 4 leikjum sínum á mótinu en þetta óopinber úrslitaleikur um annað sætið riðilsins.  Tvö efstu sætin gefa sæti í átta liða úrslitunum. Heimastúlkur í Bosníu eru síðan ósigraðar á toppi riðilsins.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir nær hér frákasti á mótinu.Mynd/FIBAEurope



Fleiri fréttir

Sjá meira


×