Fótbolti

Barcelona að safna frönskum varnarmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forráðamenn Barcelona ætla sér að styrkja varnarleik liðsins fyrir komandi tímabil og það virðist sem þeir horfi fyrst og fremst til Frakklands.

Barcelona gekk í dag frá kaupunum á Lucas Digne frá Paris St-Germain fyrir 16,5 milljónir evra en sú tala gæti hækkað upp í 20,5 milljónir evra. 16,5 milljónir evra eru 2,2 milljarðar íslenskra króna.

Áður hafði Barcelona fengið til sín franska miðvörðinn Samuel Umtiti en hann stóð sig mjög í frönsku vörninni á Evrópumótinu.  Umtiti er 22 ára gamall og var keyptur frá Lyon.

Lucas Digne er líka 22 ára varnarmaður eins og Umtiti en Digne getur bæði spilað sem vinstri bakvörður eða á vinstri kanti.

Lucas Digne spilaði ekki með Paris St-Germain á síðasta tímabili heldur var hann þá í láni hjá AS Roma á Ítalíu. Hann hefur alls spilað 148 leiki fyrir Lille, PSG og Roma og er með 6 mörk og 13 stoðsendingar í þeim. Hann er sóknarbakvörður með bæði hraða, yfirferð og tækni.

Digne hefur skrifað undir fimm ára samning við Barcelona og það verður hægt að kaupa hann út úr nýja samningnum fyrir 60 milljónir evra. Lucas Digne var í EM-hóp Frakka en kom ekki við sögu í neinum leik.

Barcelona mun kynna nýja leikmanninn sinn á Camp Nou á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×