„Ég hef alltaf pælt í þessu og hugsað um þetta,“ sagði Aron Einar í viðtali við íslenska blaðamenn í Annecy í dag. Hann rifjaði upp þegar Aron Einar hélt utan í landsleikinn gegn Kasakstan í mars 2015 en Kristbjörg Jónasdóttir, unnusta hans, var þá langt gengin. Erfinginn kom svo í heiminn á meðan strákarnir voru úti.
„Það vita allir söguna,“ segir Aron. „Þá var ákveðið að gera þetta nógu andskoti vel, til að það yrði ekki aftur snúið og litið til baka. Djöfullinn, af hverju gerði ég þetta,“ segir Aron Einar.
Greinilegt er að söknuðurinn er mikill. Foreldrar, systkini og unnusta Arons dvöldu í Annecy fram yfir Austurríkisleikinn og hafði landsliðsfyrirliðinn því gott aðgengi að sínum nánustu, fyrir utan Óliver Breka. Aron Einar birti myndband í fyrradag sem hann fékk sent frá Íslandi af þeim litla klappa í takt við pabba sinn. Það hafi skipt miklu máli að fá myndbandið.
„Ég fæ bara kökk í hálsinn því ég er ekki búinn að sjá hann í mánuð,“ segir Aron Einar.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).