KR rúllaði yfir n-írska liðið Glenavon í Belfast í seinni leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Lokatölur 0-6 og KR vann einvígið 8-1, samanlagt.
KR-ingar unnu fyrri leikinn með tveimur mörkum gegn einu og þeir náðu forystunni strax á 6. mínútu í leiknum í kvöld þegar Kennie Chopart skoraði.
Chopart var svo aftur á ferðinni á 29. mínútu og fór þá langt með að klára einvígið enda þurfti Glenavon á þeim tímapunkti að skora fjögur mörk til að komast áfram.
Staðan 0-2 að loknum fyrri hálfleik en í þeim seinni bættu KR-ingar fjórum mörkum við.
Hólmbert Aron Friðjónsson fiskaði víti á 52. mínútu, fór sjálfur á punktinn og skoraði. Hólmbert skoraði einnig úr víti í fyrri leiknum.
Hann fór af velli á 56. mínútu og í hans stað kom Morten Beck Andersen. Daninn var ekki lengi að láta að sér kveða og skoraði fjórða mark KR á 68. mínútu eftir sendingu frá öðrum dönskum varamanni, Denis Fazlagic.
Óskar Örn Hauksson gerði fimmta markið á 78. mínútu og aðeins tveimur mínútu síðar rak Fazlagic síðasta naglann í kistu N-Íranna. Lokatölur 0-6, KR í vil.
KR-ingar mæta svissneska liðinu Grasshoppers í næstu umferð. Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson skrifaði undir samning við Grasshoppers í dag en hann gæti þreytt frumraun sína með liðinu gegn KR.
Burst í Belfast og KR örugglega áfram
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið




Jón Otti körfuboltadómari fallinn frá
Körfubolti


Kvartar undan boltanum eftir tuttugu skot framhjá
Enski boltinn



