Fótbolti

Tyrkir sendu Tékka heim en eiga þó litla möguleika sjálfir | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Burak Yilmaz fagnar marki sínu.
Burak Yilmaz fagnar marki sínu. Vísir/EPA
Tyrkir eiga enn möguleika á því að komast í sextán liða úrslit Evrópukeppninnar í Frakklandi efir 2-0 sigur á Tékkum í kvöld í lokaumferð D-riðilsins. Úrslitin gulltryggja það endanlega að íslenska landsliðinu nægir jafntefli á móti Austurríki á morgun.

Tyrkir þurfa að treysta á hagstæð úrslit úr riðlum E og F á morgun ætli þeir að komast í sextán liða úrslitin sem hefast um helgina.

Tyrkir töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu án þess að skora mark en þeir léku á alls oddi í kvöld.

Tyrkneska liðið tryggði sér þriðja sætið í riðlinum en slæm markatala liðsins gæti reynst Tyrkjum dýrkeypt þegar menn fara að reikna úr hvaða lið í 3.sæti eru með bestan árangur.

Tyrkir eru með 3 stig en -2 í markatölu. Albanía er líka með 3 stig og -2 í markatölu og þessi tvö lið eru líkleg til að enda sem þessi tvö úr þriðja sæti sem komast ekki í sextán liða úrslitin.

Hagstæð úrslit úr riðlum E og F á morgun gætu þó breytt því. Það gæti vissulega farið svo að liðið í 3. sæti úr þeim riðlum náði ekki í þrjú stig eða meira.

Úrslitin í leiknum í kvöld eru gríðarlega vonbrigði fyrir Tékka sem eins og kunnugt er unnu riðil Íslands í undankeppninni.  Tékkar hefðu tryggt sig áfram með sigri í kvöld en eru þess í stað á leiðinni heim.

Burak Yilmaz kom Tyrkjum í 1-0 strax á 10. mínútu eftir frábæran undirbúning Emre Mor en Emre Mor er einmitt á leiðinni til Borussia Dortmund. Tékkar áttu ágætar sóknir í fyrri hálfleik og voru nálægt því að jafna þegar Tomás Sivok skallaði í slá.

Ozan Tufan bætti síðan við öðru marki Tyrkja á 65. mínútu með þrumuskot framhjá Petr Cech í marki Tékka. Það varð síðan síðasta mark leiksins og Tyrkir fögnuðu sínum fyrsta sigri á mótinu.

Burak Yilmaz kemur Tyrklandi í 1-0 Ozan Tufan kemur Tyrkjum í 2-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×