Fótbolti

Heimir um ummæli Löw: Við viljum ekki vera léleg eftirlíking af Spáni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Joachim Löw.
Heimir Hallgrímsson og Joachim Löw. Vísir/Vilhelm/Getty
Heimir Hallgrímsson vildi lítið segja um ummæli Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands, sem segist sjá eftir þeirri breytingu að fjölga liðum í úrslitakeppni EM úr sextán í 24.

„Það eru lið sem eru að spila öfga varnarleik. Þau gera það samt vel," sagði Löw. „Litlu liðin eins og Albanía og Wales eru mjög vel skóluð varnarlega," bætti hann við en nefndi þó ekki Ísland á nafn.

Sjá einnig: Joachim Löw ekki ánægður með leikstíl liða eins og Íslands

Ísland hefur spilað mjög öflugan varnarleik á mótinu í Frakklandi og uppskorið tvö 1-1 jafntefli.

„Þetta er hans skoðun og svo sem engu við það að bæta,“ sagði Heimir. „Hvert lið hefur sinn stíl til að vinna leiki. Menn verða að spila sínum styrkleikum.“

„Ég hef oft sagt að ef við ætlum að spila eins og Spánn þá yrðum við léleg eftirlíking af Spáni og aldrei geta neitt.“

„Ef að honum [Löw] finnst leiðinlegt að spila gegn varnarsinnuðum liðum þá er það hans skoðun.“

Hann tekur undir að öll þau lið sem eru komin á EM eigi erindi þangað og að hvert lið eigi sinn stíl og einkenni.

„Okkar styrkleiki snýst um vinnusemi, baráttu og góðan og skipulagðan varnarleik. Við höfum þó skorað í öllum leikjum og sýnt að við getum skorað mörk. Við gerum það ekki á sama hátt og aðrir.“

„Ef að allir myndu spila eins myndu þeir sem eru með bestu einstaklingana allta vinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×