Ekki er enn uppselt á vináttulandsleik Íslands og Liechtenstein sem fer fram á Laugardalsvelli annað kvöld.
Þetta er síðasta leikur íslensku strákanna áður en þeir halda til Frakklands þar sem þeir taka þátt á EM 2016.
Sjá einnig: Kári ekki með gegn Liechtenstein
Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, greindi frá því á blaðamannafundi í morgun að það sé búið að selja um 7500 miða á leikinn annað kvöld.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er hissa að það sé ekki enn uppselt á leikinn.
„Lars er náttúrulega að kveðja og þetta gæti verið síðasti leikur Eiðs Smára á Laugardalsvelli. Mér finnst það svolítið skrítið en þetta er allt í góðu,“ sagði Aron Einar á blaðamannafundinum í morgun.
„Kannski er fólk að spara fyrir Frakkland, það er kannski aðalástæðan,“ bætti fyrirliðinn við í léttum dúr.
Á blaðamannafundinum sagðist Eiður Smári Guðjohnsen ekkert hafa ákveðið með framtíðina og hvort hann ætli að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir EM.
Það liggur þó fyrir að leikurinn á morgun verður sá síðasti sem Lars Lagerbäck stýrir íslenska landsliðinu í á Laugardalsvelli.
