Lewis Hamilton tók ekki þátt í þriðju lotu tímatökunnar, vélin í bíl hans bilaði aftur í eins og hún gerði í Kína, þrátt fyrir að Mercedes taldi sig hafa komið í veg fyrir vandann.
„Ég missti aflið eins og í Kína. Það er ekkert sem ég get gert til að koma í veg fyrir þetta, nema halda áfram að berjast,“ sagði Hamilton. Óheppnin virðist elta heimsmeistarann.
Vettel var með fimm sæta refsingu eftir að gírkassanum í bíl hans var skipt út eftir æfingarnar í gær.
Í fyrstu lotunni duttu út Manor og Renault ökumennirnir ásamt Sauber ökumönnunum. Á sama tíma setti Hamilton brautarmet á Sochi brautinni, sem var svo bætt ítrekað seinna í tímatökunni.
Hamilton fór til dómaranna eftir keppninna, til að svara fyrir það hvernig hann kom aftur inn á brautina eftir að hann hafði farið út af í beygju tvö. Ökumenn eiga að fara ákveðna leið inn á aftur ef þeir fara út af, Hamilton gerði það ekki.
Rosberg setti góðan tíma í annarri lotu. Hamilton var tæplega hálfri sekúndu á eftir Rosberg eftir fyrstu tilraunina og fannst ástæða til að fara aftur út á brautina til að leita að tímanum sem Rosberg hafði fundið. Hamilton fann þó ekki tímann í það skiptið enda bilaði bíllinn hans.

Hægri spegillinn datt líka af Red Bull bíl Daniel Riciardo í annarri lotu, en hann komst áfram.
Rosberg átti nánast auðvelt með að tryggja sér ráspól í þriðju lotu. Baráttan um annað sæti var afar hörð á milli Raikkonen, Vettel og Bottas.
Hamilton ræsir tíundi og Vettel sjöundi á morgun. Keppnin verður spennandi á morgun.
Bein útsending frá keppninni hefst á Stöð 2 Sport klukkan 11:30 á morgun.
Hér fyrir neðan má sjá öll úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.