Fótbolti

Suárez fyrstur til að skora fernu í tveimur leikjum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez skoraði fjögur mörk í 6-0 sigri Barcelona á Sporting Gijón í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Úrúgvæinn, sem hefur verið sjóðheitur í allan vetur, skoraði öll fjögur mörkin í seinni hálfleik en tvö þeirra komu af vítapunktinum.

Suárez gerði einnig fernu í 0-8 sigri Barcelona á Deportivo La Coruna á miðvikudaginn og hefur því skorað átta mörk í síðustu tveimur leikjum Börsunga.

Þetta hefur enginn leikmaður afrekað í sögu spænsku deildarinnar, þ.e. að skora fernu í tveimur leikjum í röð. Tölfræðigúrúrinn sem kallar sig Mr. Chip benti á þetta á Twitter.

Suárez átti einnig þrjár stoðsendingar í leiknum gegn Deportivo og hefur því komið með beinum hætti að 11 mörkum í síðustu tveimur leikjum.

Öll 14 mörkin sem Barcelona hefur skorað í síðustu tveimur leikjum má sjá hér að neðan.

Suárez er sem stendur markahæstur á Spáni en hann hefur gert 34 mörk í 32 deildarleikjum. Úrúgvæinn hefur skorað tvær fernur, þrjár þrennur og þrjár tvennur á tímabilinu.

Takist Suárez að verða markakóngur á Spáni verður það í þriðja landinu sem hann afrekar það.

Framherjinn öflugi var markakóngur í Hollandi tímabilið 2009-10, þegar hann skoraði 35 mörk fyrir Ajax, og á Englandi tímabilið 2013-14, þegar hann gerði 31 mark fyrir Liverpool.

Barcelona 6-0 Sporting Deportivo 0-8 Barcelona



Fleiri fréttir

Sjá meira


×