Fótbolti

Börsungar í bullinu: Þriðja tapið í röð og allt jafnt á toppnum

Lionel Messi niðurlútur.
Lionel Messi niðurlútur. vísir/getty
Valencia setti toppbaráttuna í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í algjört uppnám með sigri á Nývangi í kvöld, 2-1. Barcelona er þó enn á toppnum, en nú með jafn mörg stig og Atletico Madrid.

Fyrsta markið kom á 26. mínútu þegar Ivan Rakitic skoraði sjálfsmark. Fyrigjöf Valencia-manns fór í Rakitic og þaðan skrautlega í netið.

Gestirnir voru ekki hættir því í uppbótartíma í fyrri hálfleik tvöfaldaði Santi Mina forystuna fyrir Valencia og staðan 0-2 í hálfleik.

Óvænt tíðindi, en Lionel Messi tókst loksins að brjúta þéttan múr gestana að baki á 63. mínútu með sínu fyrsta marki í langan tíma.

Heimamenn gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna metin, en allt kom fyrir ekki og dýrmæt stig í súginn hjá þeim. Lokatölur 1-2 sigur Valencia.

Barcelona er þó enn á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 76 stig, jafn mörg og Atletico sem er með lakari markahlutfall, og Real kemur í því þriðja með 75.

Valencia er í tólfta sætinu eftir þennan frábæra sigur með 40 stig, en þetta var fjórði leikurinn hjá Barcelona í röð án sigurs í spænsku deildinni. Þetta var einnig þriðja tapið í röð hjá liðinu í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×