Meira en 100 þúsund flóttamenn hafa komið til Evrópu það sem af er þessu ári en í fyrra komu 100 þúsund flóttamenn til álfunnar á fyrstu sex mánuðum ársins. Það má því gera ráð fyrir því, miðað við þann fjölda sem nú hefur komið, að mun fleiri flóttamenn eigi eftir að koma til Evrópu á þessu ári en því síðasta þegar á milli 1,2 til 1,5 milljónir flóttamanna komu til álfunnar.
Í frétt á vef Guardian kemur fram að að minnsta kosti 102.500 flóttamenn hafi komið til grísku eyjanna Samos, Kos og Lesbos í janúar og það sem af er febrúar. Þá hafa 7.500 manns komið til Ítalíu en alls er talið að yfir 400 flóttamenn hafi látist á leið sinni til Evrópu, en eins og þekkt er koma margir þeirra sjóleiðis sem er afar hættulegt.
Nærri helmingur þeirra sem hafa komið eru að flýja stríðið í Sýrlandi og um 20 prósent koma frá Afganistan.
Evrópuríki hafa verið vægast sagt ósamstíga í því hvernig bregðast á við stríðum straumi flóttamanna. Sum ríki hafa tekið upp á því að takmarka fjölda þeirra sem þau taka á móti, til að mynda Austurríki sem setti fyrir helgi takmarkanir sem kveða á um að ekki verði tekið á móti fleirum en 80 flóttamönnum á dag og 3.200 verði leyft að fara í gegnum landið á leið sinni til annarra ríkja.
