James Milner skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu eftir að Dominik Kohr fékk boltann í höndina í teignum.
Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náði ekki að bæta við öðru marki. Augsburg hefði því nægt eitt mark til að komast áfram á útivallamarkareglunni en Tobias Werner fékk eitt besta færi Þjóðverjanna til að skora en Simon Mignolet sá hins vegar við honum.
Liverpool hafði aðeins skorað sex mörk í sjö síðustu leikjum sínum í Evrópukeppninni en Marwin Hitz, markvörður Augsburg, reyndist heimamönnum erfiður í kvöld. Liverpool gerði þó nóg til að komast áfram.