Klopp hefur verið afar líflegur í samskiptum sínum við fjölmiðla síðan hann tók við Liverpool í október á síðasta ári.
Á hefðbundnum blaðamannafundi daginn fyrir leik byrjaði Klopp að ávarpa blaðamenn á þýsku. Þegar þýskur blaðamaður bar upp spurningu fyrir hönd enskumælandi starfsfélaga sína og bað um að hann myndi svara á ensku, vildi Klopp ekki verða við þeirri bón.
„Ég bið kærlega að heilsa starfsfélögum þínum en þeir geta spurt mig sjálfir að þessu þegar ég kem aftur til Englands.“
„Nú erum við staddir í Þýskalandi og ég ætla ekki að svara spurningum á ensku.“
„Ég hitti þá [ensku blaðamennina] nokkuð oft og það ætti ekki að vera erfitt fyrir þá að spyrja mig að þessu á föstudaginn.“
Það var þó túlkur á fundinum og hann spurði hvort hann ætti að þýða svarið fyrir ensku blaðamennina. „Mér er algjörlega sama,“ sagði Klopp og skellihló.
Blaðamannafundinn má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. Klopp svarar áðurnefndri spurningu eftir 11:30 mínútur.