Það eru sem sagt söngdívurnar Greta Salome og Alda Dís sem munu einkum og sér í lagi bítast um miðann til Stokkhólms, þar sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin 10., 12. og 14. maí. Ísland keppir í fyrri undanriðli, 10. maí.

Samkvæmt stuðlum Betsson er lagið Á ný, sem Elísabet Ormslev syngur, en er eftir Gretu Salóme, líklegast til að blanda sér í slaginn meðal þeirra fjögurra laga sem útaf standa. Á ný er með stuðulinn 3,50. Óstöðvandi er með stuðulinn 4,80, Spring yfir heiminn með 7,25 en samkvæmt Betsson er nánast útilokað að lagið Hugur minn er fari fyrir hönd þjóðarinnar til Stokkhólms. Stuðullinn á því er 17, sem þýðir þá einfaldlega það að ef einhver hefur trú á því lagi, vill leggja þúsund krónur undir og Hugur minn er sigrar, þá fær sá hinn sami greitt út 17 þúsund krónur.
Íslendingar geta í ljósi þessa búist við æsispennandi Júróvisjónkvöldi á morgun.