Fótbolti

Níu leikmenn Atletico þurftu að sætta sig við tap á Nývangi | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Barcelona vann nauman 2-1 sigur á Atletico Madrid á heimavelli í toppslag dagsins í spænska boltanum en Atletico Madrid lék tveimur mönnum færri síðasta hálftímann.

Gestirnir í Atletico Madrid komust yfir á upphafsmínútum leiksins þegar fyrirgjöf rataði á Koke sem skoraði með skoti af fjærstöng.

Börsungar voru ekki lengi að svara en um miðbik fyrri hálfleiks skoraði Lionel Messi jöfnunarmarkið eftir góða undirbúning hjá Jordi Alba og Neymar.

Luis Suárez kom Barcelona yfir eftir góða sendingu inn fyrir vörnina frá Ivan Rakitic en hann nýtti styrk sinn til að ýta varnarmanninum frá og skapa sér pláss til þess að renna boltanum framhjá Jan Oblak í marki Atletico Madrid.

Atletico Madrid varð fyrir áfalli stuttu síðar þegar Filipe Luis fékk beint rautt spjald fyrir brot á Messi undir lok fyrri hálfleiks.

Aðeins fimmtán mínútum síðar fékk Diego Godín seinna gula spjald sitt fyrir ljótt brot á Suárez og var róðurinn þungur eftir það.

Leikmenn Atletico gáfust ekki upp og pressuðu hátt á vellinum allt fram að lokamínútu leiksins en náðu ekki að jafna metin og lauk leiknum með 2-1 sigri Barcelona.

Messi jafnar metin fyrir Barcelona: Suárez kemur Börsungum yfir:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×