Fólkinu var einnig bannað að fara gangandi. Þúsundir flótta- og farandfólks fóru á hjólum yfir landamærin til Noregs í fyrra. Með því komust þau í gegnum galla á lögunum. Flestir þeirra voru að flýja átök í Sýrlandi.
Mannréttindasamtök hafa samkvæmt BBC fordæmt brottvísanirnar en að degi til er hitastigið á svæðinu um -30 gráður. Rússar samþykktu nýverið að leyfilegt væri að flytja fólkið með rútum. Þeir þrettán sem voru sendir til baka í dag voru allir með rússnesk vegabréf eða landvistarleyfi þar í landi.
Fólkinu hefur verið komið fyrir í skýli í bænum Kirkenes, nærri landamærum Noregs og Rússlands. Þaðan hafa hins vegar einhverjir flúið af ótta við að vera send aftur til Rússlands. Þá hafa einnig borist fréttir af hungurverkfalli í skýlinu.