Sjálfskaparvíti Óli Kristján Ármannsson skrifar 6. júlí 2015 07:00 Vonandi verður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi í gær til þess að aðrar Evrópuþjóðir sjái ljósið og fallist á að skynsamlegt sé að styðja Grikki til uppbyggingar í stað þess að hrekja þá í einangrun og eyðimerkurgöngu vegna ofurskulda og viðbúinna gjaldeyrishafta með nýrri drökmu í stað evru. Ljóst var orðið í gærkvöldi að afgerandi meirihluti sagði nei við þeirri leið niðurskurðar og skuldapíningar sem Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn héldu að landinu. Um leið er ekkert skrítið að standi í öðrum löndum Evrópu að moka peningum í Grikki sem sjálfir hafa komið sér í þá stöðu sem landið er í. Gildir þá einu hvort horft er til þess að í ljós kemur að fegraðar hagtölur hafi verið notaðar til að koma landinu í myntsamstarf Evrópuþjóða eða annarra þátta sem leitt hafa til skuldasöfnunar gríska ríkisins. Mistök hafa líka víðar verið gerð en innan Grikklands. Kannski hefði þurft að rýna betur í hagtölurnar sem frá landinu komu við inngönguna í myntsamstarfið. Undirstaðan þarf jú að vera í lagi. Þá er deginum ljósara að innan Evrópusambandsins voru gerð mistök þegar skuldir Grikkja við bankastofnanir voru teknar yfir og þar með lagðar á herðar skattgreiðendum í Evrópu. Þar virðist óttinn við frekari áföll í fjármálageira Evrópu hafa búið til enn stærri krísu. Fortíðinni verður hins vegar illa breytt. Takast verður á við þá stöðu sem upp er komin. Og í Grikklandi er staðan slæm, engum blöðum er um það að fletta. Atvinnuleysi, súpueldhús og skortur á lyfjum. Auðvitað eiga ríki Evrópu ekki að láta líðast að slíkar hörmungar gangi yfir í bakgarðinum hjá sér. Hagfræðingar hafa útlistað hvernig hrakfarir Grikkja aukist mjög líklega við að flæmast út úr evrusamstarfinu. Hvaða áhrif slík atburðarás hefði á pólitískt landslag í Evrópu, eða innan Grikklands, er erfitt að spá um. Vert er þó að hafa í huga að í efnahagsþrengingum er jarðvegur frjór fyrir hvers kyns öfga og þjóðernisrembu. Nóg er nú samt. Skaðað orðspor er löndum líka skaðlegt. Það endurspeglast til dæmis í þeim lánakjörum sem bjóðast Argentínu annars vegar og Finnum hins vegar. Annað landið lagði sig fram um að greiða skuldir sínar, ekki hitt. Því verður þess vegna seint haldið fram að Grikkir hafi allt að vinna með því að borga ekki skuldir sínar. Vonarglæta er fólgin í orðrómi um að taka eigi á ný upp viðræður um þá stöðu sem Grikkland er í. Gríska þjóðin hefur talað og ljóst er að leita þarf annarra leiða en áframhaldandi niðurskurðar þar í landi. Um leið þurfa Grikkir að sýna lit í að koma á nauðsynlegum endurbótum. Þeim þarf hins vegar að koma þannig á að gríska þjóðin líði ekki fyrir á meðan. Þríeykið, ESB, Seðlabanki Evrópu og AGS, þurfa að átta sig á því að skuldir Grikkja verða seint innheimtar að fullu. Landið þarf svigrúm til að rétta úr kútnum. En þá reynir líka á Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, og getu hans til að ná samningi. Belgingur „neisins“ má heldur ekki verða til þess að Grikkir ætli að fá allt fyrir ekkert. Hvort menn beri gæfu til að ná saman verður svo tíminn að leiða í ljós. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Grikkland Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Vonandi verður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi í gær til þess að aðrar Evrópuþjóðir sjái ljósið og fallist á að skynsamlegt sé að styðja Grikki til uppbyggingar í stað þess að hrekja þá í einangrun og eyðimerkurgöngu vegna ofurskulda og viðbúinna gjaldeyrishafta með nýrri drökmu í stað evru. Ljóst var orðið í gærkvöldi að afgerandi meirihluti sagði nei við þeirri leið niðurskurðar og skuldapíningar sem Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn héldu að landinu. Um leið er ekkert skrítið að standi í öðrum löndum Evrópu að moka peningum í Grikki sem sjálfir hafa komið sér í þá stöðu sem landið er í. Gildir þá einu hvort horft er til þess að í ljós kemur að fegraðar hagtölur hafi verið notaðar til að koma landinu í myntsamstarf Evrópuþjóða eða annarra þátta sem leitt hafa til skuldasöfnunar gríska ríkisins. Mistök hafa líka víðar verið gerð en innan Grikklands. Kannski hefði þurft að rýna betur í hagtölurnar sem frá landinu komu við inngönguna í myntsamstarfið. Undirstaðan þarf jú að vera í lagi. Þá er deginum ljósara að innan Evrópusambandsins voru gerð mistök þegar skuldir Grikkja við bankastofnanir voru teknar yfir og þar með lagðar á herðar skattgreiðendum í Evrópu. Þar virðist óttinn við frekari áföll í fjármálageira Evrópu hafa búið til enn stærri krísu. Fortíðinni verður hins vegar illa breytt. Takast verður á við þá stöðu sem upp er komin. Og í Grikklandi er staðan slæm, engum blöðum er um það að fletta. Atvinnuleysi, súpueldhús og skortur á lyfjum. Auðvitað eiga ríki Evrópu ekki að láta líðast að slíkar hörmungar gangi yfir í bakgarðinum hjá sér. Hagfræðingar hafa útlistað hvernig hrakfarir Grikkja aukist mjög líklega við að flæmast út úr evrusamstarfinu. Hvaða áhrif slík atburðarás hefði á pólitískt landslag í Evrópu, eða innan Grikklands, er erfitt að spá um. Vert er þó að hafa í huga að í efnahagsþrengingum er jarðvegur frjór fyrir hvers kyns öfga og þjóðernisrembu. Nóg er nú samt. Skaðað orðspor er löndum líka skaðlegt. Það endurspeglast til dæmis í þeim lánakjörum sem bjóðast Argentínu annars vegar og Finnum hins vegar. Annað landið lagði sig fram um að greiða skuldir sínar, ekki hitt. Því verður þess vegna seint haldið fram að Grikkir hafi allt að vinna með því að borga ekki skuldir sínar. Vonarglæta er fólgin í orðrómi um að taka eigi á ný upp viðræður um þá stöðu sem Grikkland er í. Gríska þjóðin hefur talað og ljóst er að leita þarf annarra leiða en áframhaldandi niðurskurðar þar í landi. Um leið þurfa Grikkir að sýna lit í að koma á nauðsynlegum endurbótum. Þeim þarf hins vegar að koma þannig á að gríska þjóðin líði ekki fyrir á meðan. Þríeykið, ESB, Seðlabanki Evrópu og AGS, þurfa að átta sig á því að skuldir Grikkja verða seint innheimtar að fullu. Landið þarf svigrúm til að rétta úr kútnum. En þá reynir líka á Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, og getu hans til að ná samningi. Belgingur „neisins“ má heldur ekki verða til þess að Grikkir ætli að fá allt fyrir ekkert. Hvort menn beri gæfu til að ná saman verður svo tíminn að leiða í ljós.