Bibbi kemur fram með Metallica-heiðurssveitinni Melrökkum, sem skipuð er miklum kanónum úr tónlistarheiminum, í kvöld á Gauknum þar sem Metallica platan Kill ‘Em All verður leikin. Baldur kemur fram með hljómsveit, sem einnig er skipuð kanónum úr tónlistarheiminum, sem ætla að leika þekktustu lög The Clash á Græna hattinum í kvöld.
Bræðurnir eru lítt þekktir fyrir það að leika svokölluð „cover-lög“ heldur fyrir að vera saman í Skálmöld og Ljótu hálfvitunum. „Við höfum hvorugur komið nálægt því að spila cover-lög í ansi mörg ár,“ segir Baldur og bætir við að þegar boð um að spila í tökulagasveit sem leikur lög eftirlætishljómsveita sé lítið annað í boði en að stökkva á vagninn.
„Við erum búnir að æfa meira en Skálmöld hefur gert síðustu tvö árin. Við erum gríðarlegir félagar, bandið brjálæðislega gott þannig að þetta er hrikalega skemmtilegt,“ segir Bibbi og bætir Baldur við; „Við höfum alveg rosalega gaman af að spila þessa Clash tónlist og hún steinliggur alveg.“ Hvorir tveggja tónleikarnir hefjast klukkan 22.00.