Heilsa

Bankalán og blæðingar

sigga dögg skrifar
Vísir/Getty
Alltaf læðast mánaðamótin jafn hægt og rólega upp að mér og áður en ég veit af hrynur gluggapóstur inn um lúguna og nokkrir dropar hreiðra um sig í nærbuxunum. Hvers lags réttlæti er það eiginlega að þurfa að tæma bankareikninginn á sama tíma og maður fálmar eftir einhvers konar græju til að grípa rauðan tauminn? Eða kannski er réttara að lýsa litnum betur og segja misrautt, stundum smá brúnt, stundum hárautt, stundum smart búrgúndírautt og stundum bara ógreinilegur litur sem verður varanlegur í nærbuxunum við þvott.

Ég er ein af þeim heppnu, ég finn frekar lítið fyrir því að fara á blæðingar, mér verður ekkert sérstaklega illt, mér finnst það bara leiðinlegt og vesen. Í nýlegri nemarannsókn frá Háskóla Íslands sögðu ungar konur að þeim hafi þótt þær óundirbúnar fyrir upphaf blæðinga. Þeim hafi brugðið, upplifað skömm og ekki vitað hvert ættu að leita eða hvað þær ættu að segja sínum nánustu. Þetta er augljóslega ekki boðlegt.

Ég spurði nýverið hóp af grunnskóladrengjum hvernig túrblóð væri á litinn. Þeir horfðu hver á annan og einn stamaði útúr sér „rautt“ þegar annar greip hneykslaður fram í fyrir honum og sagði „nei það er gult“. Það hélt sá þriðji ekki og fullyrti að það hlyti að vera blátt, svona „eins og í auglýsingunum“. Einmitt. Árið er 2015 og tíðablóð er blátt í auglýsingum.

Einn strákurinn horfði rannsakandi á mig og flóðgáttirnar brustu (hans sko). „Hvernig lykt er af túrblóði? Er það vont? Finnur maður fyrir því leka? Kemur mikið í einu? Má alveg sofa hjá? Er túrblóð ekki hættulegt? Hvernig virkar túrtappi? Geta stelpur farið í sund á blæðingum?“

Það mátti heyra saumnál detta því þetta var stórmál sem alla langaði að forvitnast um en enginn þorði að spyrja bekkjarsystur sínar beint út í. Stelpurnar biluðust úr hlátri og fóru að ræða þetta sín á milli, strákunum til mikillar undrunar. Auðvitað á umræðan um blæðingar að vera hreinskilin og opinská og þar þarf ekki að vera neitt pukur þótt þannig sé það enn þá.

Ég er ekki að segja að þú þurfir að góla á hvaða degi tíðahringsins þú ert eða stærð tíðatappa sem þú notar þvert yfir kaffihúsið en það á samt að vera í lagi að ræða þetta. Allavega fræða um þetta.

Ég er að skrifa nýja bók og þar verður fjallað hreinskilnislega um blæðingar og það á mannamáli með ljósmyndum af tíðablóði á ólíkum dögum tíðahringsins, notuðum dömubindum, hálffullum álfabikar og hverju svo sem tengist blæðingum.

Eina leiðin til að létta á tabúumræðum er að nálgast þær af hreinskilni og fordómaleysi.

Ef þú vilt vera með, þá veistu hvar mig er að finna.


Tengdar fréttir

Tíðarteiti

Til að fagna upphafi blæðinga er hægt að halda tíðarteiti fyrir táningsdótturina

Fjölblöðrueggjastokkar

PCOS eða fjölblöðrueggjastokkaheilkennið getur verið mjög sársaukafullt en einnig truflað frjósemi

Tíðarverkir

Tíðarverkir geta verið missterkir og stundum mjög sársaukafullir

Tilkippileg á túr

Það þykir tabú að tala um kynlíf á blæðingum en smá túrblóð hamlar ekki kynhegðun.

Ekki þjást í hljóði

Endómetríósa er sjúkdómur sem mörgum er hulinn og fleiri þjást af honum en gera sér grein fyrir. Greiningartími er að meðaltali sjö ár á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.