„Við höfum fengið muni senda víða að og þó sýningin sé ekki stór þá er hún djúp. Fjölskyldur kvennanna hafa skilað inn myndum, textum og munum og þær ætla líka að fjölmenna á opnunina sem er mikill heiður fyrir okkur.“
Konur eru sérstaklega dregnar fram að þessu sinni í tilefni afmælisárs kosningaréttar þeirra, að sögn Guðrúnar. En hvernig skyldu þessar fimmtán hafa verið valdar?
„Fyrst horfðum við á nöfn 300 kvenna og völdum lista á eina A4-síðu, úr því urðu 40 nöfn. Okkar starfssvæði er frá rótum Snæfellsness að Hvalfirði og við vildum velja á sýninguna konur af öllu svæðinu.
Það var örugglega eitthvað aðdáunarvert í fari allra kvennanna 300 og erfitt að velja bara 15 úr en núna finnst okkur þær vera hópur vinkvenna okkar, við erum búin að lesa um þær, skoða myndir af þeim og hlusta á sögur af þeim.“
Guðrún segir konurnar fimmtán merkar á margan hátt og nefnir dæmi.
„Ein fæddist 1862 í blárri fátækt, eins og svo margar formæður okkar, en keypti sér jörð, varð sjálfstæður bóndi og byggði þar upp húsakost. Önnur var með öflugan veitingarekstur, stundum á þremur stöðum í einu og með fullt af fólki í vinnu.

Skyldu einhverjar heimildir vera til um hvort þær kusu? „Við höfum komist að því að þær voru hugsandi og áhugasamar um sitt ytra umhverfi og erum sannfærð um að allar eru góðir fulltrúar kvenna sem löngu fyrir 1915 voru verðugar þess að kjósa.
Við opnun sýningarinnar Gleym þeim ei verða merkilegir tónleikar, uppskeruhátíð verkefnis sem Safnahús vinnur að ásamt Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Þar frumflytja nemendur skólans eigin verk og yngsta tónskáldið er einungis sex ára gamalt.
Þetta er þriðja árið í röð sem þessar stofnanir vinna saman í safna- og skólastarfi.