Eftir rysjóttan vetur svífur andi ástar og drauma yfir vortónleikum Kvennakórs Kópavogs að sögn Ásdísar Arnardóttur, einnar í hópnum. Líka örlítil von um sólríkt sumar. „Það sakar ekki að láta sig dreyma,“ segir hún.
Létt klúbbastemning verður á tónleikunum sem verða í Ferðafélagssalnum í Mörkinni 6. Þeir hefjast klukkan 20.30 en húsið verður opnað klukkustund fyrr með fordrykk og lifandi tónlist.
Hluti tónleikanna er tileinkaður íslenskum þjóð- og dægurlögum en annar hluti er settur saman af þekktum erlendum lögum í djassútsetningum. Gestir sitja við borð og barinn verður opinn eitthvað fram eftir kvöldi.
Með kórnum koma fram þau Stefanía Svavarsdóttir söngkona, Richard Korn, sem leikur á bassa, og Ellert S.B. Sigurðarson á trommur og gítar. John Gear leikur á trompet og píanó og hann er jafnframt stjórnandi kórsins.
Andi ástar og drauma svífur yfir
