„Við fögnum fimmtán ára afmæli Nafnfræðifélagsins með málþingi og kaffiveitingum á morgun í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins,“ segir Jónína Hafsteinsdóttir.
Hún var starfsmaður Örnefnastofnunar og ein þeirra sem stofnuðu Nafnfræðifélagið vorið 2000.
Jónína segir starf félagsins á þessum fimmtán árum hafa falist í fyrirlestrahaldi þar sem mannanöfn og örnefni hafi verið ríkjandi efni.
„Það hefur verið fjallað um gælunöfn og ættarnöfn, mannanafnalögin, nöfn þræla í Íslendingasögum og jólasveina. En líka kindanöfn, hljómsveitanöfn og bátanöfn svo eitthvað sé nefnt.“
Örnefnin eru allt frá því að vera á einni bújörð sem verið er að kortleggja yfir í örnefni í sólkerfinu að sögn Jónínu. „Það eru nánast engin takmörk."
Á málþinginu á morgun verða þrjú erindi. Margrét Valmundsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar segir frá því hvernig vitneskja um örnefni helst milli kynslóða.
Jón Axel Harðarson prófessor fjallar um guðsheitið Yngva í germanskri goðafræði og mannanöfn leidd af því og Elín Ingibjörg Eyjólfsdóttir keltneskufræðingur ræðir um mikilvægi vegvísa á ákveðnum tungumálum.
Málþingið hefst klukkan 13.15 á morgun og er ókeypis og öllum opið.
Mannanöfn og örnefni
