Fyrir Stefan Metz leikstjóra og Sean Mackoui, leikmynda- og búningahönnuð, er Ísland átjándu aldar fjarlægur heimur. Þeir félagar hafa þó unnið hér áður með góðum árangri en sýningar þeirra Krítarhringurinn í Kákasus árið 1999 og Eldraunin á síðasta ári fóru afar vel í íslenska leikhúsunnendur.
Stefan Metz segir það ekki breyta miklu fyrir þá að nú séu þeir að takast á við íslenska klassísk. „Það virðast allir Íslendingar hafa skoðanir á Fjalla-Eyvindi,“ segir Stefan og brosir hlýlega. „Ég finn fyrir þessum áhuga en í raun ekki pressu þannig að ég finn fyrst og fremst til ábyrgðar eins og ég bara geri alltaf.“
Sean tekur undir þetta og bendir á að þeir hafi fengið tækifæri til þess að tengjast Íslandi bæði nú og í fyrri ferðum og það hafi haft heilmikið að segja. „Á sínum tíma fórum við hringferð um Ísland og það var dásamleg reynsla. Fengum að finna fyrir fámenninu og skynja náttúruöflin og fegurðina. Það hafði mikið að segja.“
Stefan bætir við að allt þetta opna rými sem er á Íslandi sé svo sérstakt. „Það er eitthvað sem við vildum reyna að fanga og eftir að við fórum í upphafi æfingatímabilsins á slóðir Fjalla-Eyvindar og Höllu þá styrktist mikilvægi þessarar nálgunar.
Stefan fór því þá leið með leikmyndina að vinna með ákaflega opið rými. „Þannig gefum við leikurunum líka ekki færi á að halla sér að einhverjum hækjum í leikmynd eða öðru slíku. Þeir þurfa að ná sambandi við áhorfendur sem þurfa að sama skapi að beita ímyndunaraflinu og taka þátt í sköpunarferli verksins.

Stefan bendir á að þó svo að það hafi verið bæði hjálplegt og ánægjulegt að kynnast landi og þjóð þá sé fjarlægðin sem þeir hafi á verkið sem útlendingar líka jákvæð. „Við erum því mjög meðvitaðir um að það eru margir sem vita miklu meira um þetta en við. Það hvetur okkur áfram í því að vinna náið með leikurunum og hlusta á skoðanir og hugmyndir annarra.“
Stefan heldur áfram og verkið er honum greinilega afar hugleikið. „Styrkur þessa verks er ekki síst í margbreytileika þess. Það er mjög dramatískt og felur í sér ákveðna beiðni um kaþarsis. Það tekst á við grimmdina í samfélaginu, ástina og hina algjöru fórn og ekkert er gefið eftir í engu að síður mjög svo ljóðrænum texta.
Það minnir okkur að mörgu leyti á Medeu. Því þegar við fórum að skoða verkið þá áttuðum við okkur á því að þetta er verk um konu. Hún er í raun burðarás verksins og sú persóna sem ver mestum tíma á sviðinu og þar af leiðandi þótti okkur rétt að hún væri einnig í titli verksins. Halla er líka fyrir okkur ákaflega íslensk. Kona með sterka þörf fyrir sjálfstæði og jarðtengd en að sama skapi afar ljóðræn og heillandi.“