„Ég hef átt við það frá 16 ára aldri að spinna samtímatónlist, klassík, djass, popp og rokk. Við Pekka Kuustisto kynntumst á hátíðinni Reykjavík Midsummer Music, sem hann Víkingur Heiðar Ólafsson stóð fyrir í júní á síðasta ári.
Við áttum að spinna örlítinn spunaópus í Norðurljósum í Hörpu en það breyttist í risavaxið skrímsli. Þetta var í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu sem við eyðilögðum eiginlega, fórum í svakalegan gír og gleymdum okkur. Það var engin leið að stoppa.“

Davíð Þór hvetur fólk til að koma í Kaldalón í Hörpu í kvöld ef það langar að heyra eitthvað sem enginn veit hvað verður.
„Þetta verður allt frá einhverju hljóðverki og skipaflautum niður í melódíur,“ segir hann kankvís og bætir við.
„Það verður einhver að sjá um þessa deild. Við Íslendingar erum með Eurovision, Myrka músíkdaga, djasshátíðir, Sónarhátíð og stóra og litla tónleika. Það verður að halda öllu litrófinu á lofti.“
Tónleikarnir hefjast klukkan átta.