Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði ljóst að samningaviðræður um grísku skuldirnar yrðu erfiðar. Grikkland þyrfti að leggja þar sitt af mörkum.

„Við erum að bíða eftir áþreifanlegum tillögum, og þá getum við spjallað betur saman,“ sagði Merkel. Ekki er reiknað með að hún hitti Tsipras fyrr en 12. febrúar, á næsta leiðtogafundi Evrópusambandsins.
„Við erum ekki komnir strax með samning, en við erum á góðri leið með að finna raunhæft samkomulag,“ sagði Tsipras hins vegar eftir fund sinn með Juncker. „Ég er mjög bjartsýnn á að við séum á góðri leið eftir þessar viðræður.“
Eitt af því sem fyrri stjórnvöld í Grikklandi hafa verið gagnrýnd fyrir er að ráðast ekki gegn þeirri landlægu spillingu og kerfismisnotkun sem keyrði landið í strand efnahagslega. Í viðtali við þýska fjölmiðilinn Zeit Online segir Varúfakis fjármálaráðherra að í þessu sé nýja gríska stjórnin frábrugðin fyrri stjórnvöldum: „Við erum kannski óreyndir, en við erum ekki partur af kerfinu,“ svarar Varúfakis. „Og við fáum ráðgjöf.“
Hann gaf líka afdráttarlaust loforð í þessu viðtali: „Grikkland mun, að frádregnum vaxtagjöldum, aldrei nokkurn tímann aftur verða með halla á fjárlögum. Aldrei, aldrei aldrei!“
Svo kom hann með eina tillögu um það, hvernig hægt væri að lækka greiðslubyrði skuldanna án þess að lækka skuldirnar sjálfar: „Vaxtagreiðslur verði tengdar við hagvöxtinn.“